Ævintýralegur dagur í Lambafellsgjá á Reykjanesi
Um síðustu helgi skrapp ég í bíltúr með syni mína sem eru 7 og 10 ára í Lambafellsgjá á Reykjanesi. Veðrið var mjög fallegt, sól og heiður himinn og tilvalið að fara í stutta ferð út úr borginni. Ferðin þangað tók um 40 mínútur.
Við ókum Reykjanesbrautina og keyrðum út af henni þar sem merkt er Keilir. Þá tók við fremur holóttur vegur sem við ókum til enda og beygðum til vinstri og lögðum við Eldborg.
Við lögðum af stað í gönguna norðan Trölladyngju og þaðan lá skýr gönguleið beint til norðurs að Lambafelli. Best er að ganga austan megin við fellið og upp í gjánna nyrst í því.
Lambafellsgjá er einstakt náttúruundir og ævintýraferð fyrir börn. Gjáin er um 115 metra löng og gengið upp 40 metra hækku. Efst í gjánni er frekar brattur kafli svo betra er að passa vel upp á börnin. Þegar við komum upp úr gjánni lá leiðin til suðurs yfir fellið, á stíginn og í bílinn aftur.
Í gönguferðinni fundum við okkur notalegan stað og fengum okkur nesti og strákarnir nutu sín virkilega í fallegu umhverfi og höfðu mjög gaman af þessari ferð. Þetta er fín ferð á góðum degi með börn. Gott er að taka með nesti og nóg að drekka og svo má auðvitað ekki gleyma myndavél.
Akstur: 40 mínútur hvor leið.
Göngutími: um 1 1/2 – 2 klst.
Hæð Lambafells: 162 metrar.
Lambafellsgjá: um 115 metrar og 40 metra hækkun.
Hentar vel fyrir börn 6 ára og eldri og þar sem talsverð hækkun er í gjánni er betra að fylgjast vel með þeim.