Hvítserkur og selaskoðun við Vatnsnes

Í sumar fór ég til til Akureyrar með syni mína og notaði tækifærið og keyrði út á Vatnsnesið sem er stutt frá Hvammstanga. Við Vatnsnes eru kjöraðstæður fyrir seli og þar er ein stærstu og bestu sellátur landsins. Þarna er hægt að sjá seli alla daga ársins og búið er að byggja upp nokkra góða selaskoðunarstaði þar sem hægt er að fara með börnin og fylgjast með selnum í sínu náttúrulega umhverfi. Hringvegurinn um Vatnsnes er um 90 km langur og að mestu malarvegur. Neðan við bæinn Ósa á austanverðu Vatnsnesi er góður staður til selaskoðunar. Við lögðum á bílaplan rétt við Hvítserk sem er fallegur brimsorfinn 15 metra hár klettur sem rís í flæðarmálinu. Hann er hvítur af fugladriti og er nafnið sennilega dregið af því. Sagt er að Hvítserkur sé steinrunnið tröll sem ætlaði að grýta Þingeyrarklaustur en dagaði upp áður en það tókst.


Við gengum niður í fjöru og skoðuðum klettinn nánar og fórum svo í skemmtilega fjöruferð í fallegri sandfjöru. Við Sigríðarósa sem liggur rétt sunnan við Hvítserk er góður selaskoðunarstaður. Flesta daga ársins liggur stór hópur sela og flatmagar á sandinum gegnt ósnum. Oft má sjá þar mörg hundruð dýr sem liggja þar þétt og njóta þess að sóla sig.

Það var alveg yndislegt að ganga um í fjörunni, njóta kyrrðar og hlusta á fuglasöng en mikið er um fuglalíf á staðnum. Fjaran er svo falleg og friðsæl og það var eins og tíminn stæði í stað. Strákarnir nutu sín í leik, þeir leituðu að fjársjóðum fjörunnar og fylgdust með selum sem flatmöguðu í sandinum. Eftir góðan tíma héldum við ferðalaginu áfram ánægð eftir góða útiveru á fallegum og friðsælum stað.

Gott að taka með : stígvél, pollabuxur, kíki, myndavél og nesti.
Aðrir fallegir staðir á Vatnsnesi sem upplagt er að sýna börnum eru:
Borgarvirki sem er mjög falleg Klettaborg. Sjá nánar hér.
Vatnsdalshólar eru hólaþyrping í Vatnsdalnum. Þeir eru sagðir vera óteljandi margir. Vestast í Vatnsdalshólum eru þrír samliggjandi hólar. Árið 1830 fór þar fram síðasta aftaka á Ísland. En þá voru hálshöggvin Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir fyrir morð á Natani Ketilssyni. Sunnan undir Vatnsdalshólum er skógarreitur, Þórdísarlundir þar sem hægt að að stoppa og fá sér nesti. Við afleggjarann inn í Vatnsdal að vestanverðu er trjálundur sem nefndur er Ólafslundur. Á bílaplaninu eru bekkir, borð og salerni fyrir vegfarendur og í trjálundinum er fín nestisaðstaða.
Selasetur Íslands er á Hvammstanga. Þetta er rannsóknarsetur sem býður upp á lifandi og skemmtilega fræðslusýningu um seli við Ísland, með sérstaka áherslu á Vatnsesið. Upplagt að koma þar við eftir góða fjöruferð.
Sundlaugin á Hvammstanga er fín laug með 25 metra útilaug, heitum nuddpotti, barnalaug og gufubaði. Alltaf gaman að skreppa í sund með börnin á ferðalagi.