Stöldrum við í Borgarnesi

Margir keyra í gegnum Borgarnes í lengri ferðum en gefa sér sjaldan tíma til að staldra við og skoða sig um. Bærinn sem er afar fallegur og friðsæll hefur að geyma þekkta sögustaði úr Egilssögu. Ferðin tekur um klukkustund aðra leið í bíl frá Reykjavík. Einnig er hægt að taka strætisvagn þangað. Þeir staðir sem standa upp úr eru Landnámssetur Íslands, Bjössaróló, fjaran við leikvöllinn, Skallagrímsgarður og Sundlaugin. Allir staðirnir eru í göngufæri.
Í Landnámssetri Íslands eru tvær sýningar. Annars vegar er landnámssagan rakin og hins vegar kynnast gestir Egilssögu. Hægt er að fá hljóðleiðsögn sem er sniðin fyrir börn frá fjögurra ára aldri. Landnámssýningin er mjög lifandi og fróðleg og heldur hljóðleiðsögnin athygli barnanna allan tímann. Sem dæmi þá fannst börnunum mjög spennandi að fá að standa upp í stafni sem líkti eftir ölduhreyfingu og skoða beinagrind Hrafna-Flóka. Egilssaga er kennd í skólum og því gaman fyrir börnin að kynnast hinum litríka Agli Skalla-Grímssyni og söguslóðum hans á sjónrænan hátt.
Eftir fróðlega heimsókn á safnið er tilvalið að fara í stuttan göngutúr meðfram ströndinni á Bjössaróló sem er skammt frá safninu. Bjössaróló hefur verið kallaður besta geymda leyndarmál Borgarness. Leikvöllurinn var eingöngu smíðaður úr endurnýttu efni sem hafði verið hent. Þarna eru skemmtileg leiktæki í fallegu umhverfi þar sem fjölskyldan getur átt notalega stund saman.
Falleg lítil fjara er rétt við Bjössaróló þar sem upplagt er að staldra við og skoða steina eða kenna börnunum þá kastfimi að fleyta kerlingar. Útsýnið þaðan er stórkostlegt en þaðan sést meðal annars eyjan Litla-Brákarey.
Skallagrímsgarður er einnig skammt undan. Í skrúðgarðinum má finna haug Skallagríms Kveldúlfssonar og listaverkið Óðinshrafninn eftir Ásmund Sveinsson.
Sundlaugin í Borgarnesi er afar fjölskylduvæn. Það er alltaf gaman fyrir börn að prófa nýja sundlaug og sérstaklega ef í henni er vatnsrennibraut. Þarna er meðal annars útilaug með þremur vatnsrennibrautum, barnavaðlaug, tveimur heitum pottum og innilaug. Sundlaugin er opin um helgar kl. 9-18.
Að enda góðan dag á því að setjast niður og borða saman er kærkomin stund. Á Landnámssetrinu er veitingastaður og einnig er hægt að setjast inn í Geirabakarí þar sem kvikmyndin “The Secret Life of Walty Mitty” í leikstjórn Ben Stiller var tekin upp að hluta en bakaríið er opið til kl.16:30 um helgar. Síðan er alltaf huggulegt og hagstætt að taka með sitt eigið nesti.
Í sömu ferð væri hægt að rölta upp Grábrók sem er handan við Bifröst og njóta útsýnisins frá toppnum. Gönguleiðin er nokkuð létt og hentar vel að fara með börn þangað upp. Það er hægt að gera gönguna skemmtilega með því að hafa eitthvað góðgæti sem verðlaun fyrir þá sem ná á toppinn.
Muna að klæða börnin eftir veðri og aðstæðum, taka með sundföt og jafnvel stígvél ef börnin vilja vaða í fjörunni.