Jólaskógur í Heiðmörk
Í mörgum fjölskyldum er það árleg hefð að fara í Heiðmörk á aðventunni og höggva jólatré. Það er mikil jólastemning í skóginum og gott að vera úti í náttúrunni.
Það er stutt að fara í Heiðmörk og alltaf er líf og fjör á staðnum. Jólasveinar koma og syngja og skemmta gestum og svo er logandi varðeldur sem gerir mjög notalega stemningu. Börnin hafa gaman af því að rölta um skóginn og taka þátt í að velja tré. Gott er síðan að ylja sér við varðeldinn og gæða sér á heitu kakói og piparkökum sem eru í boði fyrir alla.
Leiðin er vel merkt, bæði frá innkomuleiðinni við Rauðhóla og Vífilsstaðahlíð.