Vinkonuráð við kvöldmatar-kvarti
Sífellt kvart yfir kvöldmatnum og fýlusvipurinn sem fylgdi var að gera út af við mig einn daginn: „Afhverju er þetta í matinn“, „mig langar ekki í þetta,“ „afhverju keyptirðu ekki hitt“ eða „það er alltaf svo vondur matur hjá okkur.“
Ég var líka orðin þreytt á bergmálinu í sjálfri mér: „Veistu hvað ég er búin að standa lengi yfir matnum“ eða „veistu, að það eru mörg börn sem svelta og fá einungis hrísgrjón í matinn“ eða „þú hefðir átt að fæðast í Eþíópíu, þá kynnirðu að meta matinn sem ég elda fyrir þig“.
Þá birtist vinkona mín með snilldarlausn sem hún hafði reynt á sín börn.
Hver fjölskyldumeðlimur fær sinn dag og ræður þá hvað eldað er. Hann tekur þátt í innkaupum, undirbúningi, eldamennsku, leggur á borð og gengur frá í uppþvottavélina.
Svona er dæmigerður matseðill fyrir vikuna:
Mánudagur – mamma – fiskur.
Þriðjudagur – amma – ýmislegt.
Miðvikudagur – Fróði – spaghetti carbonara.
Fimmtudagur – Nökkvi – chili sin carne.
Föstudagur – pizzakvöld.
Laugardagur – pabbi – kjöt.
Sunnudagur – Flóki – hamborgari.
Verð að viðurkenna að ég var hálfhissa hvað barnið kunni lítið til verka og hvað það þekkti fá húsráð eins og að kaupa ekki beyglaðar dósir sem er líklega alfarið mér sjálfri að kenna.
Nú breyttist heldur betur tónninn hjá bræðrunum „úff, það er svo erfitt að skera svona mikið grænmeti“, „vá, hvað það er mikil vinna að elda kvöldmat“ og stoltið skín af andlitinu þegar þeir spyrja aðra fjölskyldumeðlimi „hvernig smakkast svo maturinn?“
Nú heyrist ekkert kvart lengur því enginn vill heyra gagnrýni þegar þeirra dagur rennur upp.