Að vökva garðinn heima
Það er mikil umræða um mínimalíksan lífsstíl sem er líklega andstæðan við neysluhyggjuna sem svo auðvelt er að falla fyrir. Kolbrún Sara Larsen býr ásamt fjölskyldu sinni í Danmörku. Hún sagði frá því í spjallhópnum Áhugafólk um mínimaliskan lífsstíl hvernig hún tók þá ákvörðun að lifa mínimaliskum lífsstíl til að geta notið betur tímans með fjölskyldunni. Við fengum með góðfúslegu leyfi hennar að birta hennar sýn á lífið.
Ég hef lifað mínimalískum lífstíl í mörg ár. Það er bæði meðvitað og ómeðvitað, vegna þess að mig langar til þess eða vegna þess að ég er neydd til þess fjárhagslega.
Það var svo núna um daginn að ég öðlaðist meiri hugarró.
Hingað til hef ég verið að hugsa um margt í einu, fengið margar hugmyndir og þurft að framkvæma þær flestar (og helst strax) eða verið að plana svo langt fram í tímann að ég vissi ekki einu sinni hversu langt þær pælingar næðu. Hékk mikið í símanum og þurfti að taka myndir af öllu og helst að skella því á facebook eða snappið.
Það að vita líka aldrei hvernig lífið verði næstu 2 árin hefur líka eignað sér stóran part af óróleikanum í mér.
Núna um síðustu mánaðamót tók ég hinsvegar þá ákvörðun að hætta að hugsa um allt sem ég gæti mögulega gert eða alla sem ég gæti mögulega verið að hitta/þekkja. Þið vitið, sú tilfinning að þurfa að vera alls staðar.
Ég ákvað að fara innávið og einbeita mér meira að fallegu börnunum mínum og vökva garðinn heima hjá mér í stað þess að finnast grasið grænna hinum megin.
Ég sagði upp yndislegri vinnu til þess að fara í aðra vinnu sem gerir það að verkum að ég þarf að vinna minna og get verið meira heima.
Ég nota ekki símann minn nema helst í neyð þegar börnin eru vakandi.
Halda áfram að lifa lífinu og njóta þess sem við höfum
Við tókum ákvörðun um að hætta að hugsa um að sækja um vinnu á Íslandi og einbeita okkur þess í stað að vera hérna úti og þar með að taka ekki þátt í lífsgæðakapphlaupinu. Halda áfram að búa í okkar 70 fm 2ja herb íbúð með 2 börn og endurskipuleggja hana bara þannig að okkur líði áfram sem best. Halda áfram að lifa lífinu í núinu og njóta þess sem við höfum.
Er ég sú eina sem finn hugarró í að taka ákvörðun um að taka engar ákvarðanir um óákveðinn tíma? Slökkva á símanum og taka betur eftir öllu í kringum mig.