Svartipétur þangað til einhver verður tapsár
Þær eru notalegar minningarnar með ömmu að spila Svartapétur en þær minningar rifjuðust nú upp þegar strákarnir voru að biðja mig um að kenna sér spilareglurnar. Spilabókin var gripin og reglurnar rifjaðar upp. Það færist sérstök ró yfir heimilið þegar spilin eru tekin fram …a.m.k. þangað til einhver verður tapsár!
Spilareglur Svartapéturs: Fjöldi spilara getur verið frá tveimur og upp í tíu. Notuð eru 53 spil því jókerinn er Svartipétur. Markmiðið er að losna við öll spil af hendi því þeir sem losna við öll spil sín eru sigurvegarar – það er einungis einn sem tapar, sá sem stendur uppi með Svartapétur.
Skiptið spilunum á milli leikmanna, eitt í einu (það er allt í lagi þótt einhver fái einu spili fleira en aðrir). Spilarar raða spilum sínum í samstæður, t.d. tveimur drottningum, tveimur þristum o.s.frv., sem er kastað á grúfu á miðju borðsins. Spilarinn á vinstri hönd þeim sem gaf byrjar spilið með því að draga eitt spil af gjafaranum og svo koll af kolli. Þegar spilari hefur losað sig við öll sín spil er hann laus úr spilinu en hinir halda áfram. Að lokum verður einn spilari eftir með svartapétur í hendinni og fær sá heitið svartipétur.