Afhverju er gestabók, býr einhver í Kerinu?
Hellirinn Arnarker varð til fyrir um 5000 árum í eldgosi og gengur hann alla jafna undir nafninu Kerið. Kerið er þekkt fyrir skemmtilegar ísmyndanir síðla vetrar en á sumrin sjást margir fallegir litir og forvitnileg form í hellinum. Niðurfallið er eina opið í hellinn sem er 516 metrar að lengd. Frá hellisopinu gengur rás í um 100 metra til suðurs og um 400 metra til norðurs. Við fórum norðurleiðina. Ég gerði grundvallarmistök og gleymdi að athuga hvort höfuðljósið mitt væri fullhlaðið. Strákarnir þurftu því sjá til þess að móðir þeirra yrði ekki innlyksa í hellinum og lýstu reglulega leiðina fyrir hana. Ferðin um hellin varð því aðeins hægfarnari en ella.
Fljótlega eftir að maður kemur inn í hellinn er íspollur sem var nær uppþornaður en á veturnar mun pollurinn vera stórfenglegur, eins og New York að næturlagi. Loftið í hellinum er oftast mjög rúmt en á einum stað þarf maður að bogra mjög mikið og sýna hvað maður er liðugur en eftir það getur maður gengið teinréttur. Í hellinum er gestabók sem við skrifuðum í og spurði sá yngsti afhverju það væri eiginlega gestabók, hvort það byggi einhver í hellinum?
Hellarannsóknafélag Íslands hlaut styrk úr Pokasjóði til að auðvelda aðgengi að hellinum og frá árinu 2000 hefur járnstigi legið niður í hellismunninn. Kort af hellinum er við niðurfallið og gott að kynna sér það áður en haldið er áleiðis.
Eftir ferðina fórum við á veitinga- og útsýnisstaðinn Hafið Bláa en þaðan er stórkostlegt útsýni yfir fjöruna og hafið. Við ætluðum í sundlaugina á Þorlákshöfn sem er mjög flott en komum að luktum dyrum. Mælum samt með að koma þar við ef þið eruð nógu snemma á ferð.
Varúð! Munið eftir hjálmi, góðu höfuðljósi, traustum skóm og vettlingum. Einnig er gott að vera í vatnsheldum fötum því það drýpur úr hellinum. Steinarnir í gólfinu eru valtir og einstaka holur eru í hellinum sem þarf að varast.
Staðsetning: Frá höfuðborgarsvæðinu er Suðurlandsvegur (Þjóðvegur 1) ekinn í um 17 km, þá er beygt til hægri á Þrengslaveg og ekið í átt að Þorlákshöfn (Þjóðvegur 39). Síðan er beygt til hægri inn á Hlíðarendaveg (talsvert áður en komið er að Þorlákshöfn) en bílastæðin fyrir Kerið eru við þennan veg – þessi vegur var áður Þjóðvegur 427 sem nú er búið að flytja nær strandlengjunni. Ekið er framhjá Icelandic Galcial verksmiðjunni á hægri hönd og stendur þar skilti sem segir að vegurinn endi en til að komast að Kerinu þarf að aka framhjá því og þangað til komið er að skilti á hægri hönd sem vísar á Arnarker. GPS-hnit N63 53.571 W21 29.723
Heimildir: Hellahandbókin – leiðsögn um 77 íslenska hraunhella. Björn Hróarsson