Bókasafn er notalegur staður
Það er óþarfi að láta sér leiðast þó úti sé rigning. Bókasafn er notalegur staður að heimsækja með börn. Bókasöfn eru víða og á flestum þeirra er góð aðstaða fyrir börn þar sem þau geta sest niður, lesið bækur og látið fara vel um sig. Flestum börnum finnst gaman þegar lesið er fyrir þau og hefur bókalestur jákvæð áhrif á málþroska, orðaforða og lestrarhæfni. Með því að lesa fyrir börnin leggjum við grunn á áhuga þeirra á bókalestri. Börn og unglingar fá ókeypis skírteini til 18 ára aldurs.
Á aðalsafni Borgarbókasafnsins Tryggvagötu er frábær aðstaða fyrir börn á 2. hæð. Þar eru sófar og dýnur svo hægt er að láta fara vel um sig með bók. Á staðnum er góð aðstaða fyrir yngstu börnin og tilvalið fyrir foreldra að setjast niður og lesa fyrir þau. Á hæðinni er einnig fiskabúr og skemmtilegt leikherbergi með búningum. Sunnudagar eru barnadagar á safninu og er þá alltaf eitthvað skemmtilegt um að vera fyrir þau. Dagskráin hefst kl. 15.
Sjá nánar hér.