Að gleyma sér í desilítrum og teskeiðum

Dropasteinar rannsakaðir

Samverustundir sem tengjast matargerð á heimilinu eru oft notalegar: börnin hafa gott af því að læra að hjálpa til í eldhúsinu og venjast á að setjast niður með fjölskyldunni á matmálstímum. En gleðin sem fylgir því að borða góðan mat er skammvinn því bragðið er horfið um leið og maður kyngir. Lífið virðist oft snúast um að elda girnilegan og bragðgóðan mat ef marka má allar uppskriftabækurnar sem gefnar eru út en ætli þær séu ekki um það bil þrjátíu á móti einni útivistarbók. Og þá eru ekki talin með öll uppskriftarbloggin og matreiðslusíðurnar í fréttablöðum og tímaritum. Þessi matarmenning viðgengst á sama tíma og menn eru að vinna í því að grenna eða styrkja sig. Sem er svolítið fjarstæðukennt þar sem nóg er að hugsa um mat til að kveikja á bragðlaukunum sem leiðir til þess að viðkomandi þarf að fá sér eitthvað að borða.

Ég hef sjálf verið í þessari stöðu þar sem lífið snýst meira og minna um mat. Það var á þeim tíma þegar ég var heimavinnandi húsmóðir: fyrsta sem ég hugsaði á morgnana var hvað ég ætlaði að hafa í kvöldmat. Síðan voru búðirnar þræddar til að finna allt hráefnið sem stóð í uppskriftinni. Barnið var í einhverju leiktæki meðan ég töfraði fram hvern réttinn á fætur öðrum. Eftir á að hyggja held ég að það að standa fyrir framan eldavélina hafi verið mín leið til að vera ein með sjálfri mér í svolitla stund. Gleyma mér í desilítrum og teskeiðum. Þá var einungis eitt ungbarn á heimilinu sem síðan reyndist ekki hafa minnsta áhuga á mat. Velti fyrir mér hvort það hafi verið tilviljun.

Þegar ég hugsa tilbaka þá er ég fegin að þetta tímabil stóð ekki lengi yfir. Ekki út af aukakílóunum sem bættust á mig við það að hugsa sífellt um mat. Frekar vegna þess að það er svo miklu meira gefandi að vera með hugann hjá börnunum meðan við fáum að hafa þau hjá okkur og elda heldur eitthvað einfalt. Koma við í fiskbúðinni eða henda kjúklingaleggjum í ofninn. Börn eru hrifnust af einföldum mat.

Ef þú tilheyrir þeim hópi að hugsa of mikið um mat þá mæli ég eindregið með því að fjárfesta í einhverri útivistarbók og byrja að skipuleggja frítímann með fjölskyldunni …utan eldhússins.

Hellaskoðun eins og á myndinni hér að ofan er dæmi um ævintýrilega minningu sem lifir. Barnið á ekki eftir að hugsa fallega til réttanna sem þú töfraðir fram heldur mun það minnast þess tíma þegar þú gafst því alla þína athygli.

2 Comments »

  1. Mér hefur alltaf líka fundist skemmtileg og góð fjölskyldusamvera að elda saman og líka að útbúa nesti í ævintýraferðir 😉 Börnin mín eru núna í kringum tvítugt og okkur finnst ennþá öllum gaman að hjálpast að í eldhúsinu. Til að forðast misskilning tek ég fram að það á líka við um pabba þeirra. Þau eiga fullt af góðum minningum sem tengjast eldamennsku, heima og í útilegum. Að mínu mati snýst málið ekki um hvað maður er að gera heldur að gera hlutina saman og… eins og segir í greininni… gefa börnunum athygli.

    • Er hjartanlega sammála og við fjölskyldan eigum oft góðar stundir saman við eldamennsku. Hugsunin á bak við þennan pistil var alls ekki að draga úr samverustundum í eldhúsinu heldur hugleiðingar um það hve margir eru uppteknir af mat og matarmenningu á sama tíma og þjóðin er að fitna og kyrrseta stór orsök heilsufarsvandamála. Allt er gott í hófi 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s