Örnámskeið í tálgun í Öskjuhlíð
Flestir þekkja söguna um grallarann Emil í Kattholti eftir Astrid Lindgren sem dvelst löngum stundum í smíðakofanum og tálgar spýtukalla en þeir verða á endanum þrjú hundruð sextíu og níu talsins.
Færri vita kannski að boðið hefur verið upp á námskeið í tálgun fyrir börn og fullorðna hjá Heimilisiðnarfélaginu og á sumrin hefur Árbæjarsafn einnig verið með skemmtileg námskeið í tálgun þar sem börn hafa lært réttu handbrögðin við að tálga með hníf.
Á fjölskyldudaginn í Öskjuhlíð verður boðið upp á örnámskeið í tálgun fyrir börn og foreldra og upplagt fyrir kynslóðir að sameinast í handverki og bjóða jafnvel ömmu og afa með. Þar mun Guðrún Gísladóttir smíðakennari kenna tálgun með lokuðu hnífsblaði. Hnífar og efni verða á staðnum.
Mikilvægt er að börn séu í fylgd með fullorðnum.
Guðrún verður í Öskjuhlíð kl. 13-15.