Hreyfing er besta meðalið
Rannsóknir sýna að börn sem venjast því að hreyfa sig reglulega með fjölskyldunni eru líklegri til að tileinka sér heilbrigðari lífstíl síðar á ævinni. Það sama gildir um kyrrsetu; ef börn venjast kyrrsetu (horfa mikið á sjónvarp eða sitja fyrir framan tölvu) þá er líklegra að þau hreyfi sig lítið þegar fram líða stundir. Kyrrseta og óhollt mataræði fylgjast einnig að.
Nú eru að koma æ fleiri vísbendingar um það að hreyfing er ein besta forvörnin gegn helstu sjúkdómum sem herja á mannkynið en það eru hjarta- og æðasjúkdómar auk krabbameina. Þess vegna er svo mikilvægt að við sjáum til þess að börnin fái næga hreyfingu daglega. Það er á okkar valdi að greiða götu þeirra inn í heilbrigðan lífstíl.