Ljúffengar kókospönnukökur
Ilminn sem leggur af pönnukökubakstri tengir maður venjulega við góða tilfinningu – hver man ekki eftir að hafa fengið pönnuköku hjá mömmu eða ömmu!
Hér er uppskrift að ljúffengum kúamjólkurlausum pönnukökum en hér á heimilinu hafa verið gerðar margar tilraunir í pönnukökubakstri því heimilismenn eru miklir pönnukökumenn sem eru með mjólkurpróteinóþol. Frá því að við byrjuðum að prófa okkur áfram hafa pönnukökurnar verið misvel heppnaðar, allt frá því að detta hreinlega í sundur og að vera vægast sagt vondar á bragðið. Nú teljum við okkur vera komin með hina fullkomnu uppskrift og finnst þær miklu betri en þessar gömlu góðu með kúamjólkinni. Það er fátt betra en að gæða sér á nýbökuðum pönnukökum og heitu kakói eftir útivist. Nú eða bara hvenær sem er og þær henta líka vel í nestisboxið.
3 egg
2 dl kókosmjólk úr dós (hægt að frysta afganginn)
1 1/2 dl hrísmjólk
3 dl spelt eða hveiti
1/4 tsk salt
1/2-1 tsk vanilluduft/-dropar/-sykur
3 msk kókosolía, brædd í vatnsbaði
Aðferð: Setjið egg og mjólk í skál, hrærið vel saman. Bætið hveiti við í litlum skömmtum, hrærið jafnt þar til deigið er orðið þétt og kekkjalaust. Að lokum er salt, vanilla og kókosolía hrært út í. Bakið á venjulegri pönnukökupönnu. Brúnum sykri stráð á pönnukökuna og henni rúllað upp. Gerðu svo vel!