Þakklætiskrúsin
Rannsóknir í jákvæðri sálfræði sýna að þakklæti hefur góð áhrif á sálina. Það er alls ekki erfitt að gleyma í hraða dagsins hvað maður hefur það gott og fara ósjálfrátt að hugsa hvað mann vantar. Mig t.d. langar að ferðast víðar, upplifa meira og síðan styttist í að fjölskyldubíllinn teljist til fornbíla. Nýtt eldhús í staðinn fyrir hálfrar alda eldhús er líka ofarlega á listanum og ég get eflaust haldið lengi áfram.
Einu sinni á köldum snjóþungum vetrardegi bölvaði ég því að vera ekki lengur með bílskúr. Þegar ég svo kom í vinnuna snemma morguns sagði fyrsti sjúklingurinn minn mér að hún hefði fæðst í torfhúsi á stormasömum degi sem þessum. Það var ófært á milli bæja og læknirinn komst ekki til að taka á móti henni og því varð móðir hennar að fæða hana án nokkurar aðstoðar í torfkofanum. Hún var síðasta barnið sem fæddist í torfkoka. Eftir þetta hef ég aldrei kvartað undan því að eiga ekki bílskúr.
Engu að síður er tími til kominn að snúa þessu við og setja orkuna á það góða sem við nú þegar höfum og finna hve mikið frelsi það er fyrir sálina.
Við keyptum krukku, blöð og penna, sem allt fór á eldhúsborðið. Eftir kvöldmat í lok hverrar viku fær hver heimilismaður að skrifa niður á blað nafnlaust eitthvað þrennt sem hann er þakklátur fyrir þá vikuna, brjóta blaðið saman og setja í krukkuna.
Við höfum gert þetta áður en ekki eins markvisst en það var mjög gaman að lesa miðana og mikið hlegið þegar við vorum að giska hver skrifaði hvað.
Formúlan er:
- Þakka á hverjum degi fyrir eitthvað.
- Helst þrennt.
- Það er einfalt að kenna börnunum þetta og þá verður það vani hjá þeim.
- Allt sem við veitum athygli vex og dafnar.
- Við ætlum að byrja í lok hverrar viku því ég veit að vegna anna náum við ekki að skrifa á hverjum deg.
Ætli maður fari þá ekki líka þakklátari inn í hverja og eina helgi. Gleðilegt nýtt ár!