Það er líka gaman þó úti sé rigning
Enn einn rigningardagur í dag eftir sumar sem hefur einkennst af sólarleysi og vætu. Haustið er fallegur tími en þá má líka búast við kólnandi veðri og rigningardögum. Það er alveg óþarfi að láta sér leiðast þó úti sé rigning. Á bls. 83-128 í bókinni bendum við á fjölda staða innanhús í Reykjavík og nágrenni sem gaman er að heimsækja með börn. Bókasafn er til dæmis notalegur staður. Einnig er gaman að fara í keilu, bíó, leikhús, Krakkahöllina, Klifurhúsið, Ævintýragarðinn, skauta, lasertag, sund og fleira. Síðan eru mörg söfn sem hægt er að heimsækja með börn svo sem Þjóðminjasafnið, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Sjóminjasafnið og fleira.