Vatnsmýrarhátíð fyrir fjölskyldur
Á morgun sunnudaginn 4. maí verður haldin Vatnsmýrarhátíð á vegum Norræna hússins, Háskóla Íslands og Þjóðminjasafninsins.
Margt spennandi verður í boði og fara flest atriði hátíðarinnar fram utandyra við Norræna húsið. Á staðnum verða skóflur og fötur og gerðar verða tilraunir í sandkassanum sem er stærsti sandkassi höfuðborgarsvæðisins og er í raun sólúr. Einnig verða sápukúlur og krítar og tilvalið að taka með sér flugdreka því oft blæs kröftuglega við Norræna húsið.
Gestir eru hvattir til að koma á hjólum og verður Dr.Bæk á staðnum til að yfirfara hjólin og athuga hvort þau séu nú ekki tilbúin í sumarið.
Einnig verður boðið upp á vísindasmiðju í Háskóla Íslands, leiðsögn um friðland með fuglafræðingi, álfasögur í Silfurhelli í Þjóðminjasafni Íslands, sirkuskúnstir með Sirkus Íslands og fá börnin að prófa og læra sirkusatriði á grasflötinni við Norræna húsið.
Börnin fá einnig að taka þátt í vísindaverkefni. Undir leiðsögn verða tepokar grafnir í jörð víðsvegar í kringum Norræna húsið til að kanna hve hratt þeir brotna niður. Eftir þrjá mánuði verða þeir svo grafnir upp.
Nánar um hátíðina má sjá hér.
Mynd að ofan er fengin að láni af heimasíðunni barnamenningahatid.is