Ævintýraleg Búrfellsgjá með ótal náttúruundrum
Fyrir um 7000 árum er talið að Búrfell hafi gosið. Gosið skildi eftir sig 3,5 km hrauntröð sem kallast Búrfellsgjá, sem er ævintýraleg ganga upp að Búrfelli sjálfu. Leiðin er falleg og friðsæl og mörg áhugaverð náttúrundur sem hægt er að staldra við.
Í gjánni er að finna rétt sem var hlaðin um 1840 og innst í réttargerðinu er að veggbrattur gjáarbarmur sem slútir fram yfir. Þar er náttúrulegt byrgi sem menn sváfu í á árum áður. Hægt er að lygna aftur augunum þar og ímynda sér hvernig hafi verið að hvílast þar. Hvað ætli mennina hafi dreymt?
Skammt norðan við réttina er Vatnsgjá, fyrirbrigði sem er sjaldséð á Íslandi. Um sex metrar eru niður að vatnsborði Vatnsgjárinnar en vatnið þar er ferskt og í sífelldri endurnýjun. Maður þarf að fara varlega þar í kring.
Þegar maður nálgast Búrfellið er á hægri hönd skemmtilegur hellir sem hægt er að ganga í gegnum – svolítið eins og álfahöll ef maður getur ímyndað sér hvernig slík myndi líta út.
Efst upp á Búrfellinu er fallegt útsýni í allar áttir þrátt fyrir að mesta hæð þess er einungis um 179 metrar.
Staðsetning: Til að komast á staðinn finnst okkur best að aka framhjá Vífilsstöðum í Garðabæ, beygja til hægri við Vífilsstaðavatn á Elliðavatnsveg. Síðan er beygt til vinstri inn Heiðmerkurveg (fram hjá Maríuhellum) sem ekinn er að Hjallaenda (vegurinn tekur snarpa beygju til vinstri) en þar er hægt að leggja. Skilti vísar á Búrfell og gjána og þaðan liggur augljós slóð að gjánni og fellinu.
Gönguleiðin: Fram og til baka. Við vorum um 1,5 klst að ganga fram og tilbaka með nokkrum stoppum.
Varúð! Á leiðinni eru djúpar gjár sem rétt er að varast, þannig að hafið börnin alltaf nálægt ykkur.