Slökun fyrir börn: Öndunin minnir á öldur á strönd…
Við sögðum nýlega frá svefnráði sem sló heldur betur í gegn því við fréttum af fjölda barna sem fengu betri svefn eftir að hafa fengið slökunina.
Nú heyrðum við af annarri slökunarhugleiðslu sem Auður Ýr Sveinsdóttir notar á börnin sín. Okkur þyrstir í fleiri góð ráð í hugmyndabankann og leituðum því til hennar með að deila með okkur sinni aðferð.
Notaleg stund eftir bað

Auður byrjaði að nota slökun strax þegar börnin voru nýfædd; „Þá bjó ég til notalega stund eftir bað og nuddaði þau létt með olíu. Ég hélt áfram með þessar slökunarstundir en eftir því sem börnin stækkuðu, þróuðust þessar stundir í svokallað “baðnudd” sem þau báðu um eftir bað og fyrir svefninn.“
Undanfarin ár og eftir sem börnin stækkuðu byrjaði hún að nota einskonar hugleiðsluslökun til að hjálpa þeim að fá ró eftir amstur dagsins og undirbúa sig fyrir svefninn. Beiðnin um slökunina kemur yfirleitt frá börnunum. Þau segjast sofna svo vel og verða svo róleg.
„Síðastliðið haust notaði ég þessa aðferð við að koma 20 tíu ára stelpum sem voru á fimleikaferðalagi úti á landi, í ró. Það var mikill spenningur fyrir keppni næsta dags en þær þurftu að fá góðan svefn. Ég setti lavender kjarnaolíu á koddana þeirra (þarf að gæta þess að lyktin verði ekki yfirgnæfandi) og leiddi þær í gegnum slökunina sem gékk framar vonum“, segir Auður.
Yfirleitt sofnuð áður en ég stend upp frá þeim
Aðspurð hvernig aðferð hún notar á börnin sín þá segir hún slökunina stundum skipulagða og þá liggja börnin saman í hjónarúminu en ef hún er ekki ákveðin fyrirfram og öðru hvoru barninu gengur illa að sofna að kvöldi þá sest ég hjá því og fer í gegnum slökunina til að hjálpa því að ná ró.
Ég hef kennt þeim þessa slökun til að ná tökum á óróleika og nota hana sjálf á hverju kvöldi. Þau eru alltaf komin í góða ró og yfirleitt sofnuð áður en ég stend upp frá þeim.
Öndunin öldur á strönd og hugsanir seglskútur sem sigla hljóðlátt…
Svona er slökunaraðferðin:
Eftir að hafa farið með kvöldbænirnar hefst slökunin. Hún tekur ekki endilega langan tíma, líklega um 5 mínútur en auðvitað má eyða lengri tíma í þessa dásamlegu samveru. Það fer allt eftir aðstæðum hverju sinni.
Krakkarnir koma sér fyrir í góðri stöðu, helst á bakinu eða maganum. Mikilvægast er að þeim líði vel. Ég set stundum dropa af kjarnaolíu, t.d. lavender á koddann þeirra, það þarf bara að passa að lyktin verði ekki yfirgnæfandi.
- Lokum augunum, en reynum að sofna ekki strax
- Byrjum að hlusta á öndunina, hún minnir okkur á öldur á strönd. Öndum hægt en djúpt inn og út nokkrum sinnum. Svo leyfum við önduninni að verða eðlilegri.
- Tyllum höfðinu aðeins aftur til að opna öndunarveginn, hakan á ekki að vera ofan í bringunni.
- Gætum þess að bíta ekki saman jöxlum, en varnirnar eru lokaðar.
- Tungan er þykk og kinnarnar slakar, ennið er slakt.
- Oft nudda ég létt yfir gagnaugun á börnunum til að ná fram betri slökun í andlitinu.
- Krossleggjum fætur í lótusstöðu ef þau vilja, annars eru fótleggir beinir og fætur vísa út til hliðar. Handleggir liggja örlítið frá líkamanum, lófar snúa upp.
- Ef augun eru á miklu flökti er gott að gjóa þeim lokuðum að kyrrðarstaðnum eða þriðja auganum en það er staður rétt fyrir ofan augu fyrir miðju enni.
- Í hverri útöndun finnum hvernig við sökkvum ofan í dýnuna, hver líkamshluti fyrir sig. Byrjum á höfðinu, þá öxlum og bringu, baki, kvið og mjöðmum, læri, kálfar og síðast koma fætur.
- Ef hugsanir halda áfram að koma að og trufla kyrrðina, þá skulum við ímynda okkur að við stöndum á kyrrlátri strönd og að hugsanirnar séu seglskútur. Í stað þess að grípa í þær, leyfum við þeim að sigla hljóðlátt framhjá okkur. Þær koma aftur seinna.
Krakkarnir sofna oft út frá lestrinum og því er ekki þörf á slökunarstund á hverju kvöldi. Þau lesa og skoða bækur áður en þau fara að sofa og þannig dreifa þau huganum og komast í ró. Svo förum við með kvöldbænirnar saman.
Slökunin góð stund
Auður segist nota slökunina bæði til að eiga góða stund saman og stundum sé þörf á henni til að ná fram ró sem einhverra hluta vegna hefur ekki náðst í undirbúningi fyrir svefninn.
„Þau eru ekki farin að nota þessa slökun sjálf og því leiði ég þessar stundir með þeim. Ég vona að þau muni þó gera það í framtíðinni því hvíldin sem næst fram með því að róa hugann og líkamann er svo góð“, segir Auður að lokum.
Útipúkar þakka Auði kærlega fyrir að deila með okkur þessari dásamlegu slökunaraðferð sem bætist nú í hugmyndabankann.