Svefnráð sem kennir barni slökun

Börn eru misviljug að fara að sofa. Það kemur oft fljótt fram hvort þau eru morgunhanar eða nátthrafnar. Flestir kannast samt eflaust við að hafa á einhverjum tímapunkti átt erfitt með að fá barnið sitt til að slaka á fyrir svefninn og hafa jafvel reynt að nota einhverskonar hótanir í örvæntingu sinni; „þú getur sko ekkert leikið við hann sigga vin þinn á morgun ef þú ferð ekki að sofa“ eða „ef þú ferð ekki að sofa núna þá verður þú of þreyttur á morgun og við komumst ekki í bíó“ eða „viltu að jólasveinninn sjái að þú sért óþekk að fara að sofa“.

 

Gjörbreytti svefnmynstri drengsins

Útipúkar fréttu af góðri aðferð til að róa barn fyrir svefninn án allra málamiðlana og án efa á barnið eftir að geta nýtt sér þessa aðferð síðar meir til slökunar. Magnea Árnadóttir, móðir þriggja ára drengs, var tilbúin að deila með okkur einfaldri aðferð sem hefur gjörbreytt svefnmynstri stráksins hennar.

„Þegar strákurinn minn var í kringum tveggja og hálfs árs fannst mér hann oft svolítið órólegur þegar hann átti að fara að sofa, þrátt fyrir að við vorum búin að lesa og syngja fyrir hann. Hann vildi fá að drekka, borða, fara að pissa, talaði mikið og var í raun til í allt nema að loka augunum og fara að sofa,“ segir Magnea.

MagneaOgArni_optMagnea hefur sjálf notað slökun og hugleiðslu áður en hún fer að sofa til að hjálpa sér að róa hugann eftir daginn. Henni datt því í hug að þessi aðferð gæti einnig gagnast Árna Geir, syni sínum. Hún prófaði sig áfram og var í byrjun efins um hvort hann myndi skilja þetta. Það kom henni því nokkuð á óvart þegar hún sá að slökunin hafði strax góð áhrif.

 

„Í upphafi notaði ég orð sem ég vissi að hann skildi og taldi upp líkamshluta og sagði þá vera að fara að lúlla“, útskýrir Magnea.

 

Slökunin hljómar eitthvað á þessa leið:

„Augun hans Árna Geirs lokast og fara að lúlla, höfuðið fer að lúlla, hálsinn fer að lúlla, axlirnar fara að lúlla, hendurnar eru kyrrar og fara að lúlla, fingurnir fara að lúlla, bumban fer að lúlla, bakið fer að lúlla, fæturnir eru kyrrir og fara að lúlla, tærnar fara að lúlla, Árni Geir fer að lúlla, góða nótt og sofðu rótt ástin mín“

„Í fyrstu strauk ég líka létt yfir líkamshlutana til að leggja áherslu á slökun þeirra. Ef hann opnar augun  þegar ég er t.d. komin á fæturna þá segi ég aftur:  augun lokast og fara að lúlla.

„Ég tala lágt og rólega.“

Það kom henni skemmtilega á óvart hvað hann hefur verið móttækilegur fyrir þessu og núna notar hún þessa aðferð nánast í hvert sinn sem hún svæfir hann.

„Mér finnst hann ná mjög góðri slökun, róast fyrr og sofna betur. Hann er nánast hættur öllu veseni eftir að búið er að syngja og eða lesa fyrir hann og fer beint í að loka augunum og slaka á. Hann er eins og önnur börn misþreyttur þegar hann fer að sofa og stundum sofnar hann líka í miðri sögu eða við fyrsta lag. Hins vegar þegar hann er minna þreyttur og komið er yfir háttatíma þá reynist þetta mjög vel,“ segir Magnea.

Hún hefur verið að þróa þetta áfram og nota mislangar útgáfur. Hún segist nota lengri útgáfu ef hann er lítið þreyttur og þá fer hún t.d. yfir allt andlitið (ennið, kinnarnar, hökuna, munninn, eyrun og nefið).

„Núna er ég meira farin að tala um að líkamshlutar séu slakir og þungir og ný byrjuð að bæta inn að hugurinn sé rólegur og að hugsanir sem komi megi fara aftur og hugurinn fari að sofa,“ segir hún.

 

Nýlegri útfærsla af slökuninni hljómar eitthvað á þessa leið:

„Augun lokast og fara að lúlla, höfuðið hvílir þungt á koddanum og fer að lúlla, ennið er slakt, kinnarnar eru slakar, hakan er slök, munnurinn fer að lúlla, nefið hættir að finna lykt og fer að lúlla, eyrun hætta heyra hljóð og fara að lúlla, hugurinn er rólegur og þær hugsanir sem koma mega fara aftur og höfuðið fer að lúlla, hálsinn er slakur, axlirnar eru slakar, hendurnar eru slakar og liggja þungar á rúminu, fingurnir eru slakir, bumban liggur þung á rúminu (hann liggur yfirleitt á maganum), bakið er slakt og fer að lúlla, fæturnir eru alveg kyrrir og ligg þungir og slakir á rúminu, tærnar eru kyrrar og slakar, Árni Geir liggur kyrr og slakur og þungur á rúminu og fer að lúlla. Góða nótt og sofðu rótt ástin mín.“

„Strákurinn minn varð nýlega þriggja ára og er ég því búin að vera að gera þetta í um sex mánuði. Það er ekki bara það að þetta auðveldi mér að svæfa hann á kvöldin og hann sofni betur heldur þá er ég líka að reyna að kenna honum að slaka á og róa hugann og vonandi getur hann nýtt sér það í framtíðinni til að slaka á líkamanum og róa hugann sjálfur,“ segir hún að lokum.

2 Comments »

  1. Notaði alltaf þessa aðferð á drengina mína – virkaði alltaf og þeir nota þetta sjálfir enn í dag, orðnir vel fullorðnir menn núna – um og yfir þrítugt 🙂 alveg svínvirkar !

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s