Fótabað í Gróttu
Einn af okkar uppáhaldsstöðum er útivistarsvæðið við Gróttu. Þangað fer ég regluleg með drengina mína og leyfi þeim að njóta sín í fjörunni.
Nýlega uppgötvuðum við skemmtilegt fótabað sem við prófuðum. Það er upphitað og mjög notalegt. Það var alveg yndislegt að hlusta á hafið og njóta þess að vera í kyrrðinni. Útsýnið er mjög fallegt yfir fjöllin og borgina og það var eins og tíminn stæði í stað.
Eftir góða stund fórum við og skoðuðum vitann í Gróttu sem er alltaf spennandi og ævintýralegt fyrir börn. Auðvelt er að verða strandaglópur á eyjunni. Hægt er að dvelja þar í 6 klst milli flóða. Sjá flóðatöflu hér.
Drengirnir fengu svo að vaða í fjörunni og tókum við með veiðivöðlur svo þeir gætu notið sín betur. Það er ótrúlegt hvað börn geta dundað sér endalaust í fjörunni. Þar er svo mikil friðsæld og það er eins og hafið hafi svo róandi áhrif á hugann.
Við enduðum svo á því að fá okkur nesti áður en haldið var heim á leið allir endurnærðir eftir góða útiveru.
Muna: taka með handklæði, stígvél, pollabuxur og eitthvað skemmtilegt dót fyrir fjöruferðina svo sem stækkunargler, ílát undir fjársjóði fjörunnar, skóflur og fleira.
Gott er að taka með nesti og nóg að drekka.
Fótabaðið er í fjörunni á hægri hönd rétt áður en komið er að bílastæðum Gróttu. Rétt fyrir neðan lítinn skúr sem sést vel frá veginum.