Gott að börn séu í boðinu því þá verður farið í jólaleiki

 

Kristin_G
Kristín Gunnlaugsdóttir

Við hnutum um skemmtilegt viðtal við Kristínu Gunnlaugsdóttur, myndlistarmann, í Fréttablaðinu um síðustu helgi. Í hennar fjölskyldu tíðkast að fara í jólaleiki sem allir tóku þátt í. Sem barn ólst Kristín upp við það að fara í jólaleiki hjá afa og ömmu sinni. Móðir hennar var einnig fjörug og uppátækjasöm í leikjum. Henni þótti ætíð tilhlökkunarefni að mæta í boð ef börn væru á svæðinu því þá væru meiri líkur á að farið væri í leiki og að það yrði gaman.

Kristín segir að það sé svo ótrúlega gaman að sjá börn og unglinga lifna við í boðum sem þau hefðu annars einangrast í eða hefði leiðst.

„Kosturinn við að fara í leiki er sá að börn, unglingar og eldri mætast og allir verða jafnir“, segir Kristín.

Kristín heldur hefðinni og er þakklát fyrir að fjölskyldan hennar er alltaf til í sprell. Útipúkar spurðu Kristínu nánar út í jólaleikina og þökkum við henni fyrir að deila þeim með okkur.

 

Amma mín er veik

Eldspýta er tekin og brennisteinninn brotinn af. Spýtunni kemur viðkomandi fyrir í munni sér, milli framtannanna og neðri tanna, á brún tannanna. Þetta krefst vissrar þolinmæði og lagni. Þegar hægt er að halda spýtunni fastri með tönnunum einum segir viðkomandi af bestu getu: Amma mín er veik. Aðrir við borðið gera sér upp samúð og spyrja hvað sé nú að henni. Þá þarf sá sem spýtuna hefur upp í sér að vera með í huga nafn sjúkdóms eða lasleika sem hann nefnir. Til dæmis: Hún mjaðmagrindarbrotnaði. Þetta mun sennilega enginn skilja en er talsvert fyndið að sjá. Þá er bara að endurtaka sjúkdómsheitið þar til einhver nær að skilja hvað var sagt. Eftir það er komið að næsta manni að reyna og síðan koll af kolli.

 

Kisa segir …

Allir sitja og mynda hring. Sá sem er hann stendur í miðjum hringnum með bundið fyrir augun og snýr sér í nokkra hringi. Síðan þreifar hann fyrir sér með rassinum og iljunum – hendur eru krosslagðar á brjóst – og velur sér hnjákolla til að setjast á. Fólkið í hringnum er hljótt og hallar sér aftur, reynir að verjast hlátri. Þá segir sá sem er hann „Kisa segir…“ og sá sem setið er á segir „mjá“ og getur reynt að breyta rödd sinni eins og honum er best lagið, t.d. mjög djúpradda eða mjóróma. Þetta má endurtaka í þrígang eða þangað til giskað er á nafn þess sem mjálmar. Ef giskað er á rétt nafn þá fer sá í miðjuna og koll af kolli.

 

Sykurmolar í vör

Allir troða tveimur sykurmolum (brúnum) undir fremri vör og syngja saman „Ó, jesús bróðir besti“ eða annað kirkjurækið lag. Kristín segir að það sé mikið hlegið í þessum leik því það er líkast til að tröllabörnin séu öll samankomin í messu.

 

Land, sjór og loft

Allir sitja og mynda hring. Sá sem er hann fer í miðju hringsins og hefur kústskaft í hendi. Hann bendir á einn í hringnum um leið og hann segir annaðhvort „land“, „sjór“ eða „loft“ og telur upp á tíu. Sá sem bent er á verður að svara áður en talið er upp á tíu. Til dæmis ef hann segir sjór, þá er ekki nóg að segja „fiskur“ heldur verður að segja „ýsa“ o.s.frv. Það er leyfilegt að benda oft á sama einstaklinginn, t.d. ef mann langar að hrekkja einhvern. Einnig má leika sér með að telja hratt upp á tíu. Ekki er leyfilest að endurtaka oft sama orðið, t.d. „ýsa“ – þó má gera undantekningu ef mjög ung börn eru með í leiknum. Sá sem finnur ekki upp á neinu heiti áður en talið er upp að tíu endar í miðju hringsins með kústskaftið.

Hver er maðurinn?

Einn leikmaður ákveður hver maðurinn er og hinir mega aðeins spyrja spurninga sem hægt er að svara með já eða nei. Til dæmis: Er maðurinn karl? Er hann dökkhærður? Sá sem giskar rétt ákveður finnur næsta mann. Athugið að maðurinn getur verið karlmaður eða kvenmaður.

Uppfært 25.desember. Anna Lilja Björnsdóttir var svo elskulega að deila með okkur leik sem er vinsæll í hennar fjölskyldu.

Jafnvægisleikur

Allir geta tekið þátt í þessum leik. Notaður er bréfpoki (t.d. úr IKEA) sem látinn er standa á gólfinu. Leikmenn standa á öðrum fæti með hendur fyrir aftan bak. Sá sem er hann beygir sig niður eða halla sér fram til að ná í pokann með munninum og verður að standa í sömu sporunum – bannað að færa fótinn. Svo tekur næsti leikmaður við. Þegar allir leikmenn hafa reynt er brotið aðeins upp á pokann svo hann minnki. Næsta umferð verður þannig erfiðari o.s.frv. Það er mikið hlegið í þessum leik og ótrúlegasta fólk sýndi leynda hæfileika á meðan aðrir voru mjög klaufalegir.

Góða skemmtun og gleðileg jól!

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s