Dýragarðurinn í Slakka
Hefur þú komið í Dýragarðinn í Slakka? Hann er afar fallegur húsdýragarður í Laugarási sem er í um 75 mínútna akstursfjarlægð frá Reykjavík. Þarna fá börn að njóta sín með dýrum undir berum himni. Það er til dæmis vinsælt hjá börnum að fá að knúsa og klappa kisum og hundum. Einnig er hægt að spila minigolf og leika á litlum leikvelli. Þarna geta foreldrar slakað á áhyggjulaus í fallegu umhverfi. Veitingar eru seldar á staðnum. Opið verður í sumar alla daga kl. 11-18. Skammt frá Slakka eru garðyrkjustöðvarnar Engi og Akur þar sem hægt er að kaupa kryddjurtir, grænmeti og ávexti. Sjá nánar á bls. 160-161 í bók og hér. Hægt er að keyra í gegnum Selfoss á leiðinni í Slakka og koma við í Sundhöllinni sem er mjög barnvæn og skemmtileg fyrir fjölskyldur og fá sér jafnvel veitingar á Kaffi Krús sem er mjög notalegur veitingastaður á Selfossi. Sjá nánar á bls. 163 og 165 í bók.