Ungbarnanudd, tengslahormón og svefn
Flest okkar höfum þörf fyrir snertingu. Mismikla þó. Rannsóknir hafa sýnt að við snertingu losnar hormónið oxýtósín sem talið er að hjálpi okkur að upplifa væntumþykju. Því hefur það stundum verið kallað tengslahormón. Það hækkar einnig við mjólkun en er líklega best þekkt sem hríðarhormón því það örvar samdrátt legsins í fæðingu.
Ein leið til að styrkja tengslin við barnið er að gefa því nudd – ég hefði viljað vitað að á sínum tíma því ég átti erfitt með að tengjast fyrsta barninu. Nudd hefur einnig róandi áhrif, það getur bætt svefn, aukið öryggistilfinningu og dregið úr magakrömpum svo eitthvað sé nefnt.
Hrönn Guðjónsdóttir heilsunuddari hefur kennt ungbarnanudd í mörg ár og er hún í senn fagmannleg, hlýleg og góður kennari – sjá um námskeiðin hér. Ég fór með yngsta soninn í ungbarnanudd til hennar á sínum tíma og bý enn að þeirri þekkingu. Þegar ég gaf drengnum, sem þá var um sex mánaða, nudd fyrir nóttina átti hann auðveldara með að sofna og óværðin minnkaði. Eftir þessa upplifun var ég svekkt yfir að hafa ekki vitað af þessu fyrr. En til að bæta það upp bauð ég þeim eldri einnig nudd, sérstaklega ef þeir áttu erfitt með að sofna. Nú eru drengirnir á grunnskólaaldri og biðja enn stundum um nudd og svo fæ ég líka stundum nudd frá þeim sem er náttúrulega ómótstæðilegt. Það væri ekki leiðinlegt ef þeir héldu því áfram fram á fullorðinsár :).